top of page
Bio (IS)

FERILSKRÁ

Oddur Jónsson, barítón, hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin 2018 sem söngvari ársins fyrir hlutverk Michaels í Brothers, margverðlaunaðri óperu Daníels Bjarnasonar á Listahátíð 2018. Hann var útnefndur Bjartasta vonin á Íslensku tónlistarverðlaununum 2014 fyrir Rodrigo í Don Carlo, sem var frumraun hans í Íslensku óperunni.

Oddur lærði hjá Ólöfu Kolbrúnu Harðardóttur og Alexander Ashworth í Söngskólanum í Reykjavík og lauk þaðan burtfararprófi. Hann stundaði framhaldsnám í óperu- og ljóðasöng við Mozarteum háskólann í Salzburg, Austurríki hjá Andreas Macco og Mörthu Sharp. Hann hlaut Lilli Lehmann viðurkenninguna fyrir framúrskarandi meistarapróf frá Mozarteum Stiftung.

 

Við Íslensku óperuna hefur Oddur sungið titilhlutverkið í Don Giovanni, Figaro í Rakaranum frá Sevilla, Rodrigo í Don Carlo, Faðirinn í Hans og Grétu, Ned Keene í Peter Grimes og Barone Douphol í La traviata. Önnur óperuhlutverk sem hann hefur sungið eru Wolfram í Tannhäuser (Óperuhúsið í Chemnitz, Þýskalandi), Schaunard í La bohème (Reisopera, Hollandi), Oreste in Iphigènie en Tauride, Prins Yeletsky í Pique Dame (Opernbühne Bad Aibling, Þýskalandi), Greifann í Brúðkaupi Fígarós, Guglielmo í Così fan tutte, Belcore í Ástardrykknum og Kaiser Overall í Der Kaiser von Atlantis eftir Viktor Ullmann.

Sem ljóðasöngvari hefur hann flutt Das Lied von der Erde eftir Gustav Mahler í Garnier-óperunni í París, Vetrarferðina og Schwanengesang á Schubert hátíðinni í Vilabertran á Spáni og haldið ljóðatónleika á Britten-Pears hátiðinni og á Oxford Lieder Festival á Englandi. Oddur hefur sungið bassahlutverkin í Jólaóratóríunni, H-moll messunni, Jóhannesar- og Mattheusarpassíunni eftir Bach, Messíasi og Solomon eftir Händel, Requiem og Krýningarmessunni eftir Mozart, Requiem eftir Faurè, Messa di gloria eftir Puccini, Petite Messe Solennelle eftir Rossini, Te Deum eftir Charpentier og Mysterium eftir Hafliða Hallgrímsson.

 

Oddur hefur hlotið fjölda viðurkenninga í alþjóðlegum keppnum. Hann fékk Schubert verðlaunin og verðlaun sem besti ljóða- og óratóríu flytjandinn í Francesc Viñas keppninnni í Barcelona. Hann sigraði Brahms-keppnina í Pörtschach í Austurríki og varð þriðji í Schubert keppninni í Dortmund, Þýskalandi. Hann varð þriðji í Musica Sacra óratóríukeppninni í Róm og söng í úrslitum Belvedere keppninnar 2014. Hann hlaut námsstyrki frá Landsbankanum, Hamel-Stiftung í Hannover og Gianna-Szell í Salzburg.

bottom of page